Sigurður Ingjaldsson
Sigurður fæddist að Ríp í Skagafirði 10. Apríl árið 1845. Foreldrar hans voru Ingjaldur Þorsteinsson og Guðrún Runólfsdóttir er stunduðu búskap að Ríp í tvíbýli við séra Jón Reykjalín. Eignuðust þau hjón tíu börn saman og var Sigurður þriðji yngstur. Frá Ríp fluttu þau hjón að Víðivöllum og síðar í Eyhildarholt en árið 1851 þegar Sigurður var á sjötta ári fluttu þau að Balaskarði í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Við þann stað kenndi Sigurður sig alla tíð síðan. Þegar Sigurður var barn að aldri var hann um tíma sendur í fóstur að Beinagerði í Hegranesi í Skagafirði þar sem bjuggu hjón sem hétu Hannes og Snjólaug. Nefnir hann þessi hjón í sögunni og minnist þeirra af kærleika og hlýhug. Fullorðinn starfaði Sigurður lengstum við sjómennsku og þótti góður formaður bæði heima á Íslandi og vestra eftir að hann flutti þangað. Þá þótti hann mjög hagur smiður og lagði sérstaklega fyrir sig að smíða spæni og göngustafi sem þóttu mikil gersemi. Sigurður kvæntist Margréti Kristjánsdóttur á Íslandi og var hún þrettán árum eldri en hann. Þau fluttu vestur um haf árið 1887, en þá var Sigurður rúmlega fertugur en hún komin á sextugsaldur. Settust þau að í Gimli og bjuggu þar jafnan síðan. Margrét lést árið 1908 og tók hann það mjög nærri sér og fylltist depurð í kjölfarið og það var fyrst og fremst til að sigrast á henni að hann byrjar að skrifa sögu sína. Fyrsta bindið kom út árið 1911 en alls urðu bindin þrjú. Þá skrifaði Sigurður einnig Gísla þátt Brandssonar og kom hann út á prent skömmu fyrir lát Sigurðar. Í minningarorðum um Sigurð í Lögbergi segir að hann hafi verið stálminnugur, átt létt um orðfæri og verið fróður svo eftir væri tekið. Sigurður lést í húsi sínu á Gimli 26. desember 1933 88 ára að aldri.